Markmið BRÚARINNAR er að samþætta þjónustu bæjarins og auka lífsgæði barna, unglinga og fjölskyldna þeirra.

Áhersla er lögð á að veita aukna þjónustu á fyrri stigum með aðkomu Brúarteyma leik- og grunnskólanna. Ásamt því hefur samvinna fagfólks verið efld á milli fjölskyldu- og barnamálasviðs og mennta- og lýðheilsusviðs Hafnarfjarðar.


Brúarteymi innan leik- og grunnskóla

Í Brúarteymum sitja fagaðilar á vegum skólans, ásamt ráðgjöfum frá fjölskyldu- og skólaþjónustu BRÚARINNAR, sálfræðingum og/eða sérkennslufulltrúa frá mennta- og lýðheilsusviði. Hlutverk Brúarteyma er að kortleggja stöðu barns og leita sameiginlegra lausna, barni og fjölskyldu þess til stuðnings. Í Brúarteymi er nám, hegðun, þroski og/eða líðan barns rædd með samþykki foreldra og viðunandi úrræði virkjuð til að bregðast fyrr við erfiðleikum eða aðstæðum barnsins.


Breytt verklag í þjónustu við börn og fjölskyldur

Í byrjun var þessi nýja nálgun innleidd í sjö leikskóla og þrjá grunnskóla. Haustið 2019 bættust við fjórir leikskólar og tveir grunnskólar. Skólarnir taka þátt í þróun þessa nýja vinnulags sem síðar verður innleitt í alla leik- og grunnskóla bæjarins. Ekki er um tímabundið verkefni að ræða heldur breytt verklag í þjónustu við börn og fjölskyldur hjá Hafnarfjarðarbæ. Til þess að óska eftir þjónustu Brúarteymis er foreldrum bent á að hafa samband við deildarstjóra eða skólastjórnendur.


Texti tekinn af heimasíðu Hafnarfjarðar - https://www.hafnarfjordur.is/ibuar/skolar-og-born/bruin/