Leikurinn er mikilvægur þáttur í námi og starfi skólans. Stöðvavinna, flæði og samvinna fléttast inn í leikinn og áhersla er á skapandi starf. Markvisst er unnið með snemmtæka íhlutun, málörvun, læsi, stærðfræði og vísindi, sem samtvinnast leiknum. Leikskólinn er nálægt stórbrotinni náttúru og verður umhverfismennt einn af lykilþáttum skólans.
Leikskólinn lítur til starfsaðferða Reggio Emilia, þar sem litið er á barnið sem hæfan einstakling með möguleika og getu til að efla eigin þekkingu. Til að vinna með hæfileika og styrkleika barnanna er áhersla á lýðræði, samræðu, sjálfsstyrkingu og þekkingaleit. Við erum svo heppin að vera með eigin Remidu, þar söfnum við saman ýmiskonar endurnýtanlegum efnivið sem unnið er með í sköpun og leik.